„Sá besti í heimi í dag“

Mohamed Salah með boltann í leiknum gegn Roma í gærkvöld.
Mohamed Salah með boltann í leiknum gegn Roma í gærkvöld. AFP

Steven Gerrard, fyrrverandi fyrirliði Liverpool, var ekkert að skafa af hlutunum þegar hann ræddi um Egyptann Mohamed Salah eftir 5:2 sigur Liverpool gegn Roma í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á Anfield í gærkvöld.

Salah, sem hefur farið á kostum með Liverpool á leiktíðinni, skoraði tvö af mörkum Liverpool og lagði upp tvö og hann hefur nú skorað 43 mörk í öllum keppnum á tímabilinu.

„Það er erfitt að bera hann saman við Cristiano Ronaldo og Lionel Messi því þeir hafa verið í sérflokki í svo langan tíma en að mínu mati er Salah besti leikmaður heims um þessar mundir,“ sagði Gerrard í viðtali við BT Sport eftir leikinn. Ronaldo hefur skorað 42 mörk á leiktíðinni en Messi 40.

Salah hefur skorað 9 mörk í Meistaradeildinni á þessu tímabili og var um síðustu helgi útnefndur besti leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert