Wenger var Manchester United þakklátur

Sir Alex Ferguson, Arsené Wenger og José Mourinho á Old …
Sir Alex Ferguson, Arsené Wenger og José Mourinho á Old Trafford í dag. AFP

Arsené Wenger beið ósigur í síðustu heimsókn sinni á Old Trafford sem knattspyrnustjóri Arsenal en lið hans tapaði 2:1 í dag.

Wenger að vonum svekktur með úrslitin eftir að Marouane Fellaini tryggði United stigin þrjú með sigurmarki í uppbótartíma leiksins en hann bæði hrósaði og þakkaði United fyrir viðtökurnar fyrir leik.

Sir Alex Ferguson, fyrrum stjóri United, og Wenger háðu ófáar knattspyrnu orrusturnar á sínum tíma en þeir féllust í faðma á Old Trafford fyrir leik og Ferguson afhenti Wenger gjöf við stutta minningarhátíð. Að lokum bættist Mourinho í hópinn og þeir þrír stilltu sér upp fyrir myndatöku.

Wenger fékk einnig góðar móttökur frá stuðningsmönnum United sem klöppuðu fyrir Frakkanum er hann gekk út á Old Trafford grasið, mögulega í síðasta sinn.

„Þetta var indælt,“ sagði Wenger við Sky Sports fréttaveituna eftir leik.

„Þetta var bara annar leikur fyrir mig en ég er þakklátur fyrir þennan vott af virðingu og vináttu frá Manchester United, ég naut þess.“

„Ég hef verið að koma hingað í mörg ár og á næsta ári mun einhver annar sitja á bekknum hérna og fá fjandsamlegar viðtökur, engar áhyggjur,“ sagði glettinn Wenger að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert