„Salah verður að yfirgefa Liverpool“

Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool hefur náð því besta út úr …
Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool hefur náð því besta út úr Mohamed Salah á leiktíðinni. AFP

Hany Ramzy, fyrrverandi þjálfari egypska landsliðsins í knattspyrnu segir að Mohamed Salah, sóknarmaður Liverpool í ensku úrvalsdeildinni verði að yfirgefa félagið í sumar eftir frábært tímabil með liðinu.

„Spurningin er hvort að það sé betra fyrir Salah að vera áfram hjá Liverpool eða yfirgefa félagið í sumar. Persónulega þá finnst mér að hann eigi að taka skrefið og fara, hann er tilbúinn. Þetta er rétti tíminn fyrir hann til þess að fara til stórliðs eins og Real Madrid á Spáni, hann myndi henta þeirra leikstíl mjög vel,“ sagði Ramzy.

Salah hefur verið besti leikmaður Liverpool á þessari leiktíð og hefur hann skorað 43 mörk fyrir félagið í öllum keppnum.

„Hann hefur verið þeirra besti maður á tímabilinu. Hann er markahæsti leikmaður liðsins og ef hann bíður með að færa sig þá gæti hann misst af tækifærinu. Það verður erfitt fyrir hann að leika þetta eftir á næstu leiktíð með Liverpool. Hann gæti meiðst og misst af leikjum en eins og staðan er í dag þá getur Salah farið til Real Madrid eða Barcelona og hann ætti að nýta sér það,“ sagði Ramzy að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert