Setti Salah met, eða hvað?

Mohamed Salah fagnar markinu gegn Brighton í dag.
Mohamed Salah fagnar markinu gegn Brighton í dag. AFP

Setti Mohamed Salah markamet í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag þegar hann gerði sitt 32. mark fyrir Liverpool í deildinni í vetur í 4:0 sigrinum á Brighton í lokaumferðinni?

Enskir fjölmiðlar telja að svo sé og íslenskir miðlar hafa tekið það upp eftir þeim, en sú fullyrðing stenst varla þegar málið er skoðað nánar.

Um markamet í úrvalsdeildinni er ekki að ræða. Andy Cole og Alan Shearer skoruðu 34 mörk hvor á tímabilunum 1993-94 og 1994-95.

Þá léku 22 lið í deildinni og spiluðu því 42 leiki hvert, en frá 1995 hafa þau verið 20 og spilað 38 leiki á tímabili. Útfrá því hefur verið fullyrt að Salah sé nú handhafi markametsins í 38 leikja deild.

En það stenst ekki heldur. Á árunum 1906 til 1920 léku líka 20 lið í efstu deild á Englandi og þá skoruðu markahæstu menn nokkrum sinnum fleiri mörk en 32. Bert Freeman skoraði 38 mörk fyrir Everton tímabilið 1908-1909 og enginn hefur gert betur í deildinni þegar hún hefur verið skipuð 20 liðum.

Salah vantaði því sex mörk til að ná Freeman. 

Markametið í efstu deild á Englandi á hins vegar Dixie Dean sem skoraði 60 mörk fyrir Everton, í 22 liða deild, tímabilið 1927-1928.

Árið 1992 varð 1. deildin á Englandi, sem hafði verið efsta deild þar í landi frá 1888, að úrvalsdeild. Þá byrjuðu einhverjir að skrifa metabækur upp á nýtt og miða allt við árið 1992. Þá hafði hinsvegar enska deildakeppnin þegar verið í gangi í 104 ár. Lið sem unnu 1. deildina til ársins 1992 teljast eftir sem áður enskir meistarar á viðkomandi árum og varla er hægt að strika út annan árangur sem náðist í deildinni á árunum 1888 til 1992.

En Mohamed Salah er markakóngur tímabilsins 2017-2018 með 32 mörk fyrir Liverpool. Harry Kane, sem  gerði tvö mörk fyrir Tottenham í 5:4 sigri á Leicester, hafnaði í öðru sæti með 30 mörk. Þriðji varð Sergio Agüero sem skoraði 21 mark fyrir Manchester City.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert