Nær Mourinho í annan frá Chelsea?

Willian fagnar marki með Chelsea.
Willian fagnar marki með Chelsea. AFP

Enskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Manchester United hafi rætt við umboðsmann Brasilíumannsins Willian sem leikur með Chelsea.

José Mourinho knattspyrnustjóri United er sagður vilja endurnýja kynnin við Willian en Mourinho keypti Brasilíumanninn til Chelsea árið 2013 og reyndi að fá hann til liðs við til Manchester United skömmu eftir að hann tók við liðinu.

Willian, sem er 29 ára gamall, er samningsbundinn Chelsea til ársins 2020 en hann hefur verið einn besti leikmaður Chelsea síðustu árin.

Willian verður í eldlínunni með Chelsea gegn Manchester United á laugardaginn en þá mætast liðin í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar á Wembley. Hvort það verður síðasti leikur Brasilíumannsins í treyju Chelsea verður að koma í ljós en það kom á óvart fyrrasumar þegar Mourinho tókst að krækja í Serbann Nemanja Matic frá Chelsea.

mbl.is