Allardyce er vonsvikinn

Sam Allardyce.
Sam Allardyce. AFP

Sam Allardyce segist vera vonsvikinn yfir þeirri ákvörðun Everton að reka hann úr starfi knattspyrnustjóra en eftir að hafa verið við stjórnvölinn tæpa sex mánuði hjá félaginu var hann rekinn út starfi í gær.

Allardyce átti stuttan fund með Farhad Moshiri stærsta eigenda Everton í gær þar sem honum var tjáð að samstarfinu væri lokið. Allardyce tók við Everton af Ronald Koeman í nóvember. Liðið var þá í 13. sæti en endaði í 8. sæti.

„Ég er undrandi yfir því hvernig staðið var að þessu. Það var búið að greina frá þessu í gegnum fjölmiðla áður en ég hitti Farhad,“ sagði Allardyce í viðtali við útvarpsstöðina talkSPORT.

„Ég held að það séu örugglega fleiri stuðningsmenn Everton sem voru ánægður með það sem við vorum að gera og taldi okkur vera að fara í rétta átt. Þeir sem voru óánægðir létu meira í sér heyra. Þeir sem voru sáttir sögðu ekki mikið,“ sagði Allardyce, sem átti eitt ár eftir af samningi sínum við Everton.

Portúgalinn Marco Silva, fyrrverandi stjóri Hull og Watford, þykir líklegastur til að taka við af Allardyce en Everton reyndi að fá hann áður en það réð Allardyce til starfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert