Takkaskór Salah á British Museum

Mohamed Salah skoraði flest mörk allra í ensku úrvalsdeildinni, 32 …
Mohamed Salah skoraði flest mörk allra í ensku úrvalsdeildinni, 32 talsins. AFP

Takkaskór egypska sóknarmannsins hjá Liverpool, Mohamed Salah, verða til sýnis á British Museum safninu í London næstu daga og allt fram að leik liðsins við Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu sem fram fer þann 26. maí næstkomandi í Kíev í Úkraínu.

Salah hefur farið á kostum með Liverpool á leiktíðinni og á metið yfir flest mörk skoruð í 20 liða deild á úrvalsdeildartímanum, sem hófst með stofnun deildarinnar árið 1992, en mörk Egyptans á nýliðinu tímabili urðu 32 talsins.

Skór „egypska kóngsins“ eins og hann er jafnan kallaður verða að sjálfsögðu í egypskum hluta safnsins.

„Skórnir segja sögu egypsks nútíma íkons, sem leikur listir sínar í Bretlandi, en vekur á sama tíma alþjóðlega ahygli,“ sagði sýningarstjórinn Neal Spencer við BBC sem segir skóna einnig vera hluta af því sem safnið vill koma á framfæri varðandi innsýn inn í hversdagsleikann í Egyptalandi á 20. og 21. öldinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert