Conte rekinn þrátt fyrir sigur?

Antonio Conte.
Antonio Conte. AFP

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, segir möguleika á því að hann verði rekinn frá félaginu, þótt hann geri liðið að enskum bikarmeistara í dag. Chelsea mætir Manchester United á Wembley kl. 16:15.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Conte hjá Chelsea og margir búast við að hann sé á sínu síðasta tímabili sem stjóri liðsins. 

„Það eina sem ég hef áhuga á er að vinna úrslitaleikinn,“ sagði Conte við fréttamenn fyrir leikinn. „Það er ekki rétt að hugsa um framtíð mína og leikinn á sama tíma. Stundum er hægt að vinna úrslitaleiki en samt vera rekinn. Félagið finnur stundum ástæður til að reka menn sem vinna titla,“ bætti Ítalinn við. 

José Mourinho, kollegi hans hjá Manchester United, hefur staðfest að David De Gea muni standa vaktina í markinu í leiknum í stað Sergio Romero sem er að jafna sig á meiðslum. Romero spilar oftast bikarleiki United á meðan De Gea spilar deildarleikina. 

„Romero var meiddur í rúmlega tvo mánuði. Hann missti af leikjum sem hann hefði annars spilað. Hann er hins vegar nýbyrjaður að spila á ný. Ég hef fulla trú á honum, en hann hefur verið að glíma við meiðsli og því fær De Gea að spila,“ sagði Portúgalinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert