Aflýsa vináttuleik vegna ósættis

Rhian Brewster.
Rhian Brewster. Ljósmynd/Liverpoolfc.com

Liverpool hefur ákveðið að hætta við að mæta Borussia Mönchengladbach í æfingaleik í sumar en forráðamenn félagsins eru ekki sáttir við framkomu þýska félagsins.

Mönchengladbach hefur fengið skriflega kvörtun frá Liverpool yfir áhuga þeirra á ungstirninu Rhian Brewster en þýska félagið hefur áhuga á að fá þennan 17 ára leikmann í sínar raðir. Forráðamenn Liverpool telja hins vegar þá þýsku sýna af sér ósæmilega hegðun með því hvernig þeir eltast við táninginn.

Brewster vakti athygli með frammistöðu sinni á heimsmeistaramóti unglinga í fyrra en hann varð markahæsti leikmaður mótsins er England vann keppnina sem haldin var á Indlandi.

Æfingaleikur liðanna átti að fara fram á Anfield í Liverpool 7. ágúst næstkomandi en nú er ljóst að ekkert verður af þeirri viðureign.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert