Cazorla yfirgefur Arsenal

Santi Cazorla fagnar marki fyrir Arsenal.
Santi Cazorla fagnar marki fyrir Arsenal. AFP

Enska knattspyrnufélagið Arsenal tilkynnti í kvöld að spænski miðjumaðurinn Santi Cazorla yfirgæfi félagið í sumar þegar samningur hans rennur út.

Cazorla hefur ekkert spilað síðan í nóvember 2016 vegna alvarlegra meiðsla sem hann varð fyrir á hásin og sýkingar í kjölfarið. Um tíma var útlit fyrir að hann myndi aldrei spila knattspyrnu framar og læknir lýsti því yfir á tímabili að Cazorla yrði heppinn ef hann myndi ganga óhaltur það sem eftir væri ævinnar.

Eftir nokkrar aðgerðir þar sem m.a. var tekið skinn af handlegg hans til að græða á fótinn í kjölfar sýkingarinnar er Cazorla hins vegar farinn að æfa á ný og skýrt var frá því að hann myndi æfa með Villarreal á Spáni í sumar en hann lék þar á árum áður.

Cazorla, sem er 33 ára gamall, kom til Arsenal frá Málaga árið 2012. Hann lék 180 leiki fyrir félagið og skoraði 29 mörk.

„Santi er einn af mínum uppáhaldsleikmönnum. Hann notar báða fætur jafnt, er eldsnöggur að hugsa og hreyfa sig, og í leikjum geislar hann af gleði og frelsi, sem er afar sjaldgæft að sjá,“ sagði Ivan Gazidis, framkvæmdastjóri Arsenal, á vef félagsins í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert