Enginn úr Liverpool myndi styrkja Real Madrid

Mohamed Salah slær á létta strengi á æfingu Liverpool-liðsins.
Mohamed Salah slær á létta strengi á æfingu Liverpool-liðsins. AFP

Vicente del Bosque fyrrverandi þjálfari Real Madrid og spænska landsliðsins í knattspyrnu er ekki í vafa um hvað lið muni standa uppi sem sigurvegari í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Kiev á laugardagskvöldið.

Bosque sem gerði Real Madrid að Evrópumeisturum í tvígang, 2000 og 2002, segir að Real Madrid sé besta liðið í Evrópu og muni vinna titilinn þriðja árið í röð. Hann spáir því Real Madrid vinni leikinn 4:1.

„Real Madrid er með frábæran leikmannahóp. Liðið er það besta í Evrópu um þessar mundir og mun sýna það á laugardaginn. Ég sé engan í liði Liverpool sem myndi styrkja lið Real Madrid, ekki einu sinni Mohamed Salah,“ segir hinn 67 ára gamli Vicente del Bosque í viðtali við spænska blaðið AS.

Auk þess að stýra Real Madrid til sigurs í Meistaradeildinni í tvígang varð Real Madrid tvisvar sinnum spænskur meistari undir hans stjórn og þá gerði hann spænska landsliðið að heims- og Evrópumeisturum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert