Leikmannaskipti hjá Chelsea og Inter?

Mauro Icardi fagnar marki með Inter.
Mauro Icardi fagnar marki með Inter. AFP

Leikmannaskipti gætu verið í vændum hjá enska úrvalsdeildarliðinu Chelsea og ítalska A-deildarliðinu Inter.

Fjölmiðlar á Ítalíu og Spáni greina frá því að argentínski sóknarmaðurinn Mauro Icardi sé hugsanlega á leið frá Inter til Chelsea í sumar og að spænski framherjinn Alvaro Morata fari í staðinn frá Chelsea til ítalska liðsins.

Icardi varð markakóngur ítölsku A-deildarinnar á tímabilinu með 29 mörk en var ekki valinn í HM-hóp Argentínu sem verður fyrsti mótherji Íslendinga á HM í næsta mánuði.

Morata olli vonbrigðum á sínu fyrsta tímabili með Chelsea. Hann skoraði 15 mörk í öllum keppnum með Lundúnaliðinu en undir lok tímabilsins var hann orðinn varaskeifa fyrir Frakkann Oliver Giroud.

mbl.is