Veit ekki hvað Yaya er að tala um

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Eiður Smári Guðjohnsen segist ekkert skilja í ásökunum Yaya Touré um að Pep Guardiola knattspyrnustóri Manchester City sé í nöp við leik­menn sem koma frá Afríku og eru dökk­ir á hör­und.

Eiður Smári lék undir stjórn Guardiola hjá spænska stórliðinu Barcelona og í viðtali við enska blaðið The Sun í dag er hann spurður hvort hann kannist eitthvað við það sem Touré ýjar að.

„Nei ég veit ekki hvað Yaya er að tala um. Það var ekkert vandamál þegar við vorum saman hjá Barcelona,“ segir Eiður Smári en hann og Touré voru samherjar hjá Katalóníuliðinu og léku undir stjórn Guardiola áður en Fílabeinsstrendingurinn fór til Manchester City árið 2010. Guardiola tók við stjórastarfinu hjá Manchester City árið 2016.

Samningur Touré við Manchester City er útrunninn og leitar hann sér nú að nýju liði.

 
mbl.is