Vetrarfrí í ensku úrvalsdeildinni

Pep Guardiola er einn af þeim sem hefur kvartað sáran …
Pep Guardiola er einn af þeim sem hefur kvartað sáran yfir miklu leikjaálagi á Englandi. AFP

Liðin sem leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu munu fá svokallað vetrarfrí í febrúar á þar næstu leiktíð en þetta var tilkynnt í dag. Margir stjórar hafa kvartað undan miklu leikjaálagi á Englandi en ásamt deildarkeppni spila liðin í tveimur bikarkeppnum og þá taka stærstu liðin einnig þátt í Evrópukeppnum.

Enska landsliðið hefur oft fengið að finna fyrir þessu en margir leikmenn landsliðsins eru oft mjög þreyttir eftir tímabilið, sér í lagi þegar liðið hefur tekið þátt á lokamóti Evrópumeistaramótsins og heimsmeistaramótinu. Vetrarfrí er við lýði á Spáni og Þýskalandi og hefur það reynst vel þar í landi.

Það verður ekki vetrarfrí í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð en tímabilið 2019-2020 munu liðin fá tveggja vikna pásu í febrúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert