WBA hafnaði tilboði Burnley í Rodriguez

Jay Rodriguez er spenntur fyrir því að snúa aftur til …
Jay Rodriguez er spenntur fyrir því að snúa aftur til uppeldisfélagsins. AFP

Enska knattspyrnufélagið West Bromwich Albion hefur hafnað tilboði Burnley í Jay Rodriguez, framherja liðsins, en það eru enskir miðlar sem greina frá þessu í kvöld. WBA féll í ensku B-deildina í vor en Burnley á að hafa boðið 12 milljónir punda í leikmanninn.

Rodriguez þekkir vel til hjá Burnley en hann er uppalinn hjá félaginu. Hann gekk til liðs við Southampton árið 2012 þar sem hann sló í gegn en hann hefur verið óheppinn með meiðsli, undanfarin ár. Leikmaðurinn sjálfur er sagður mjög spenntur að snúa aftur til uppeldisfélagsins.

Jóhann Berg Guðmundsson leikur með Burnley sem endaði í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar á nýliðinni leiktíð. Rodriguez skoraði sjö mörk og lagði upp eitt í 31 byrjunarliðsleik með WBA í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert