Chelsea staðfestir ráðningu Sarri

Maurizio Zarri er nýjasti knattspyrnustjóri Chelsea.
Maurizio Zarri er nýjasti knattspyrnustjóri Chelsea. Ljósmynd/Chelsea

Maurizio Sarri hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea en þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í morgun. Sarri tekur við liðinu af Antonio Conte sem var látinn taka pokann sinn í vikunni.

Stjóraskiptin hafa legið í loftinu í allt sumar en Conte átti eitt ár eftir af samningi sínum við Chelsea. Sarri stýrði síðast liði Napoli í ítölsku A-deildinni en hann hætti með liðið eftir að tímabilinu lauk. Napoli endaði í öðru sæti A-deildarinnar undir hans stjórn, fjórum stigum á eftir Juventus.

Þessi 59 ára gamli Ítali hefur aldrei unnið deildartitil á ferli sínum. Hann var valinn stjóri ársins í ítölsku A-deildinni tímabilið 2016-2017.

mbl.is