Félagsmetið féll hjá West Ham

Felipe Anderson í búningi West Ham í morgun.
Felipe Anderson í búningi West Ham í morgun. Ljósmynd/West Ham

Enska knattspyrnufélagið West Ham heldur áfram að safna liði fyrir baráttuna í ensku úrvalsdeildinni í vetur og í morgun féll félagsmetið þegar Lundúnaliðið krækti í sinn dýrasta leikmann frá upphafi.

West Ham gekk þá frá kaupum á Felipe Anderson, 25 ára gömlum  brasilískum miðjumanni frá Lazio á Ítalíu, fyrir 36 milljónir punda og sú upphæð getur hækkað í 41,5 milljónir. Þar með féll metið rækilega en West Ham keypti Issa Diop fyrr í sumar frá Toulouse fyrir 22 milljónir punda.

Anderson skoraði 34 mörk í 177 leikjum fyrir Lazio og var í sigurliði Brasilíu á Ólympíuleikunum í Ríó sumarið 2016. Hann hóf að spila með Santos 17 ára gamall og kom til Lazio árið 2013.

Auk Andersons og Diops hefur West Ham að undanförnu fengið til sín þá Andriy Yarmolenko, Fabian Balbuena, Jack Wilshere, Lukasz Fabianski og Ryan Fredericks. Nýr knattspyrnustjóri, Manuel Pellegrini, tók við West Ham í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert