Emery bestu kaup Arsenal

Unai Emery.
Unai Emery. AFP

Arsenal hefur verið iðið við kolann í félagsskiptaglugganum í sumar og fengið til sín fimm leikmenn en fyrrverandi kempa liðsins segir þó engan þeirra vera kaup ársins hjá félaginu.

Þeir Lucas Torreira, Matteo Guendouzi, Bernd Leno, Sokratis Papastathopoulos og Stephan Lichsteiner hafa allir samið við Arsenal í sumar en bestu kaupin hafa verið nýi knattspyrnustjórinn, Unai Emari, að mati Robert Pirès, sem gerði garðinn frægan í Lundúnum um árabil og er í dag þjálfari hjá félaginu.

„Fyrir mér eru bestu kaupin Unai Emery, stjórinn,“ sagði Pirès sem varð enskur meistari tvisvar með Arsenal á árunum 2000 til 2006.

„Auðvitað hef ég trú á nýju leikmönnunum en Emery er stór karakter. Hann vann á Spáni og á Frakklandi og hefur mikla reynslu. Hann veit að það er mikilvægt að byrja vel og vonandi mun hann eiga farsæla tíma hjá Arsenal.“

Eldskírn Emery á Englandi verður gegn ríkjandi Englandsmeisturum Manchester City þegar úrvalsdeildin fer af stað 12. ágúst. Strax í næsta leik heimsækir Arsenal svo nágranna sína í Chelsea 18. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert