Langdvölin hjá Arsenal stærstu mistökin

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Arséne Wenger hefur viðurkennt að 22 ára dvöl hans hjá Arsenal hafi mögulega verið stærstu mistök ferilsins.

Wenger tók við Arsenal í ensku úrvalsdeildinni árið 1996 og hætti störfum í maí á þessu ári eftir að hafa orðið enskur meistari í þrígang og enskur bikarmeistari sjö sinnum.

Frakkinn átti eitt ár eftir af samningi sínum við félagið en lét gott heita eftir að hafa mistekist að koma liðinu í Meistaradeildina annað árið í röð. Hann hefur nú viðurkennt að hann horfi til baka á tíma sinn í Lundúnum með smá eftirsjá.

„Kannski það að hafa verið hjá sama félaginu í 22 ár,“ sagði Wenger, aðspurður hver stærstu mistök ferilsins hafi verið í viðtali við franska fjölmiðilinn RTL. „Ég er maður sem vill færa sig um set en líka einhver sem vill áskorun. Ég hef verið fangi eigin áskorana á köflum.“

Wenger talaði einnig um framtíðina og gaf það í skyn að hann væri ekki á höttunum eftir landsliðsstarfi.

„Ég hef velt því fyrir mér, hvort ég ætti að taka við landsliði en þá tek ég bara þátt í tíu leikjum á ári. Hjá félagsliði eru þeir 60, mitt fíkniefni er næsti leikur þannig að...“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert