United horfir til Perisic á nýjan leik

Ivan Perisic var frábær á heimsmeistaramótinu í Rússlandi.
Ivan Perisic var frábær á heimsmeistaramótinu í Rússlandi. AFP

Ein af lönguvitleysum síðasta sumars virðist vera að vakna til lífs á nýjan leik en ítalskir fjölmiðlar eru farnir að færa fregnir af áhuga Manchester United á kantmanninum Ivan Perisic sem leikur með Inter og króatíska landsliðinu.

Fréttir af væntanlegum félagsskiptum Perisic frá Ítalíu til Englands voru nær daglegt brauð á meðan félagsskiptaglugginn var opinn í fyrra en að lokum varð ekkert úr þeim skiptum sökum þess að félögunum kom ekki saman um kaupverðið.

Perisic var því áfram hjá Inter og skoraði 11 mörk í vetur er liðið tryggði sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Hann var svo frábær í liði Króatíu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi, skoraði fjögur mörk og þar af eitt í úrslitaleiknum sjálfum sem tapaðist 4:2-gegn heimsmeisturum Frakklands.

Nú er José Mourinho, knattspyrnustjóri United, talinn tilbúinn að gera aðra atlögu að kantmanninum knáa og er hann jafnvel reiðubúinn að senda bakvörðinn Matteo Darmian í hina áttina sem hluta af einhvers konar skiptum. Inter er sagt meta Perisic á um 70 milljónir evra sem er nokkuð meira en þær 50 milljónir sem félagið var sagt vilja fyrir ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert