Jóhann Berg engu gleymt hjá Burnley

Jóhann Berg Guðmundsson var fljótur að komast aftur í gang …
Jóhann Berg Guðmundsson var fljótur að komast aftur í gang með Burnley. AFP

Jóhann Berg Guðmundsson er mættur aftur til æfinga hjá enska félaginu Burnley eftir að hafa verið á heimsmeistaramótinu í Rússlandi með Íslandi og í kvöld spilaði hann sinn fyrsta æfingaleik í sumar.

Hann fagnaði endurkomu sinni með því að skora í leiknum sem var spilaður gegn Macclesfield Town í kvöld en enskir fjölmiðlar hrósa frammistöðu hans í hástert. Aaron Lennon kom Burnley yfir skömmu fyrir hálfleik og Jóhann Berg skoraði svo fljótlega eftir hlé til að innsigla 2:0-sigur en hann var svo tekinn af velli eftir klukkutíma leik.

„Það var ekki að sjá að hann hafi fyrir fáeinum vikum verið að spila fyrir framan heiminn með þjóðinni sinni gegn Argentínu og Króatíu. Það voru engar HM eftirhreytur í Guðmundssyni,“ segir í umfjöllun Lancashire Telegraph.

Burnley heimsækir Southampton í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar þann 12. ágúst næstkomandi og verður okkar maður eflaust í eldlínunni þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert