Ég skipti um skoðun

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool kveðst hafa skipt um skoðun frá árinu 2016 þegar hann gagnrýndi Manchester United fyrir að greiða 90 milljón pund fyrir franska miðjumanninn Paul Pogba.

Liverpool hefur á þessu ári varið nálægt 250 milljónum punda í kaup á nýjum leikmönnum og tveir þeirra, Virgil van Dijk og Allisson, eru dýrustu leikmenn heims í sínum stöðum.

„Landslagið hefur breyst hvað varðar verð á bestu leikmönnunum og ég geri það sem þarf til að Liverpool nái árangri. Ég hefði ekki getað ímyndað mér þetta. Fyrir tveimur árum voru 100 milljón pund brjálæðislega há upphæð. Það hefur gjörbreyst," sagði Klopp á fréttamannafundi fyrir leik Liverpool og Dortmund sem fram fer í North Carolina í Bandaríkjunum í kvöld.

„Mitt hlutverk er fyrst og fremst að gera þetta félag eins sigursælt og mögulegt er. Það snýst ekki um að láta mínar skoðanir ganga upp, segja að ég vilji ekki kaupa leikmenn og vilji ekki greiða háar upphæðir, og fyrir vikið nái Liverpool ekki árangri.

Við erum með virkilega gott lið og góðan hóp og það er dýrt að styrkja það. Betri leikmenn en þeir sem við höfum bíða ekki á hverju götuhorni. Ég tel að við höfum gert góða hluti í ár, séum með mjög góðan hóp, höfum náð ágætis árangri á síðasta tímabili, oft spilað flottan fótbolta, en samt þurfum við að gera breytingar.

Mér er sama hvað aðrir eru að hugsa, rétt eins og Manchester United var nákvæmlega sama um hvað ég sagði fyrir tveimur árum. Það var bara mín skoðun á þeim tíma. Skipti ég um skoðun? Já, það gerði ég. En það er betra að skipta um skoðun en að hafa enga skoðun!" sagði Jürgen Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert