Jón Dagur með aðalliði Fulham

Jón Dagur Þorsteinsson.
Jón Dagur Þorsteinsson. Ljósmynd/Fulham

Jón Dagur Þorsteinsson, leikmaður íslenska 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, lék í gærkvöld sinn fjórða leik með aðalliði enska úrvalsdeildarliðsins Fulham á yfirstandandi undirbúningstímabili.

Jón Dagur, sem er 19 ára gamall, kom til Fulham frá HK fyrir þremur árum og hefur verið í stóru hlutverki með U23 ára liði Lundúnafélagsins síðustu tvö árin.

Fulham vann sig upp í úrvalsdeildina í vor og Jón Dagur hefur fengið tækifæri til að spreyta sig með liðinu í öllum leikjum eftir að undirbúningur  fyrir tímabilið hófst. Í gærkvöld kom hann inn á í 4:0 ósigri gegn franska liðinu Lyon og spilaði á dögunum fyrstu 65 mínúturnar í 3:0 ósigri gegn Fenerbahce frá Tyrklandi.

Það eru því möguleikar á því að fjórir Íslendingar verði í hópum ensku úrvalsdeildarliðanna þegar deildin fer af stað í næsta mánuði en Gylfi Þór Sigurðsson leikur með Everton, Jóhann Berg Guðmundsson með Burnley og Aron Einar Gunnarsson með Cardiff.

mbl.is