Hodgson framlengir við Palace

Roy Hodgson hefur framlengt samning sinn við Crystal Palace.
Roy Hodgson hefur framlengt samning sinn við Crystal Palace. AFP

Knattspyrnustjórinn Roy Hodgson hefur framlengt samning sinn við enska knattspyrnufélagið Crystal Palace en þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í morgun. Fyrrverandi samningur hans við félagið átti að renna út næsta sumar en hann hefur nú framlengt til ársins 2020.

Hodgson er orðinn 71 árs gamall en hann tók við Palace í september á síðasta ári þegar liðið var stigalaust á botni ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið endaði í ellefta sæti deildarinnar undir hans stjórn. 

Hann stýrði enska landsliðinu áður en hann tók við Palace á síðasta ári en hann hætti með enska landsliðið eftir EM í Frakklandi 2016, þegar England féll úr leik í sextán liða úrslitum keppninnar eftir 2:1-tap fyrir Íslandi í Nice.

mbl.is