„Pogba er ánægður hjá United“

José Mourinho ítrekaði það á blaðamannafundi í vikunni að Pogba …
José Mourinho ítrekaði það á blaðamannafundi í vikunni að Pogba væri ánægður hjá félaginu. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Paul Pogba, miðjumaður liðsins, sé ánægður hjá félaginu. Pogba var sterklega orðaður við brottför frá félaginu á dögunum en Sky Italia greindi frá því í vikunni að United hefði hafnað tilboði frá spænska stórliðinu Barcelona í Pogba. Þá var leikmaðurinn sjálfur sagður vilja komast burt frá félaginu en Mourinho ítrekar að það séu engin vandamál á milli hans og Pogba.

„Pogba mætti til æfinga á mánudaginn. Hann var glaðbeittur, stoltur og tilbúinn að vinna vinnuna sína. Hann hefur staðið sig mjög vel á æfingum, alla vikuna, og ég mun ræða betur við hann í dag enda stutt síðan hann kom aftur og það er erfitt að gera sér grein fyrir því hversu þreyttur líkami hans er. Ég á ekki von á því að hann spili mikið gegn Leicester en vonandi spilar hann eitthvað. Hann er ánægður hjá United og það skiptir mestu máli.“

Pogba missti sæti sitt í byrjunarliði United á síðustu leiktíð en hann og Mourinho virtust ekki alltaf vera sammála um hlutina. Pogba varð heimsmeistari með Frökkum í sumar og spilaði leikmaðurinn frábærlega í Rússlandi. Mourinho vonast til þess að miðjumaðurinn haldi uppteknum hætti með United á leiktíðinni sem hefst í kvöld þegar United fær Leicester City í heimsókn á Old Trafford.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert