Mourinho ætti að horfa til Leeds

Ætti Mourinho að horfa til óvinarins í B-deildinni?
Ætti Mourinho að horfa til óvinarins í B-deildinni? AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóra Manchester United á Englandi, væri nær að hætta að kaupa sér lið og búa þau frekar til, eins og erkifjendurnir í Leeds United eru að gera í B-deildinni, samkvæmt blaðamanni Telegraph.

Portúgalinn hefur kvartað mikið í fjölmiðlum í sumar yfir því hve illa hefur gengið að kaupa leikmenn til liðsins. Þá vildi hann ekki svara spurningum blaðamanna um möguleika United á að blanda sér í titilbaráttuna í vetur.

Hjá Leeds er hinn geðþekki Marcelo Bielsa við stjórnvölinn en hann er þekktur fyrir að vera kostgæfinn þjálfari sem kýs að búa til lið á æfingasvæðinu, ekki í félagsskiptaglugganum. Argentínumaðurinn tók við hinu sögufræga félagi í sumar en liðið hefur ekki leikið í efstu deild síðan 2004. Stuðningsmenn Leeds eru þó aftur farnir að láta sig dreyma eftir glæsilega byrjun á tímabilinu en liðið er búið að vinna bæði Stoke og Derby í fyrstu tveimur umferðunum, lið sem er spáð toppbaráttu.

Jeremy Wilson, blaðamaður Telegraph, segir að Mourinho gæti lært ýmislegt af Bielsa og aðferðum hans. „Spilamennska Leeds og úrslitin í fyrstu leikjunum eru skýr dæmi um hvað er hægt að afreka á æfingasvæðinu og koma þau einmitt á tíma þar sem Mourinho benti á að hann væri þjálfari frekar en knattspyrnustjóri í nútímaknattspyrnu,“ skrifar Wilson meðal annars í pistli sínum.

„Fullt af liðum hafa sýnt það eftir fyrstu umferðina í úrvalsdeildinni að það er hægt að vera betri þökk sé þjálfun, frekar en seðlaveskinu. Mourinho var einu sinni þjálfari sem lét liðin sín spila fram úr væntingum en nú er það Bielsa sem setur fordæmi sem Mourinho ætti að fylgja.“

Marcelo Bielsa fer vel af stað með Leeds.
Marcelo Bielsa fer vel af stað með Leeds. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert