Willian hefði farið frá Conte

Willian.
Willian. AFP

Knattspyrnumaðurinn Willian segir það ekki möguleika að hann hefði verið áfram hjá Chelsea, hefði Antonio Conte ekki hætt sem knattspyrnustjóri félagsins.

Willian mátti þola talsverða bekkjarsetu á síðasta tímabili og var orðaður við bæði Manchester United og Barcelona í sumar en samband hans og Conte var talið afar stirt. Brasilíumaðurinn hefur skorað 44 mörk í 238 leikjum fyrir Chelsea frá árinu 2013 en Barcelona bauð í þrígang í sóknarmanninn.

Conte var að lokum látinn fara frá Chelsea og landi hans frá Ítalíu, Maurizio Sarri tók við stjórnartaumnum. Aðspurður hvort hann hefði verið áfram hjá Chelsea undir stjórn Conte var svar Willian afdráttarlaust, „nei, ekki séns.“

„Ég er hérna vegna þess að ég vil spila fyrir Chelsea. Ég fer bara ef Chelsea vill losna við mig,“ bætti hann við en honum líður sennilega eitthvað betur undir leiðsögn Sarri og lagði hann upp fyrsta markið í 3:0-sigri á Huddersfield í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert