Shaqiri sagður hafa hafnað United

Xherdan Shaqiri gekk til liðs við Liverpool í sumar fyrir ...
Xherdan Shaqiri gekk til liðs við Liverpool í sumar fyrir 13 milljónir punda. AFP

Xherdan Shaqiri, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, hafnaði því að ganga til liðs við Manchester United í sumar en það er svissneski miðillinn Blick sem greinir frá. Liverpool borgaði Stoke 13 milljónir punda fyrir Shaqiri sem féll með Stoke úr ensku úrvalsdeildinni í vor.

Samkvæmt svissneska miðlinum lék Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, stórt hlutverk í ákvörðun Svisslendingsins um að fara til félagsins. „Ég er lengi verið aðdáandi Jürgen Klopp. Hann er knattspyrnustjóri sem spilar frábæran fótbolta og hann er frábær manneskja líka,“ sagði Shaqiri á dögunum.

„Það var mikilvægt fyrir mig að fá að vinna með honum og starfsliði hans og ég lagði mikla áherslu á það. Hann veit hvað ég get og hann hefur þekkt til mín lengi. Ég get spilað allar stöður, framarlega á vellinum og liðið getur nýtt sér fjölhæfni mína,“ sagði Shaqiri í samtali við Liverpool Echo.

mbl.is