Tafir á nýjum leikvangi Tottenham

Nýr leikvangur Tottenham í byggingu.
Nýr leikvangur Tottenham í byggingu.

Tafir verða á því að nýr leikvangur enska knattspyrnuliðsins Tottenham verði tekinn í gagnið en prófanir hafa leitt í ljós galla í öryggiskerfi leikvangsins.

Stefnt var að því að spila fyrsta leikinn á móti Liverpool 15. september en nú er ljóst að það gengur ekki eftir. Tottenham mun því halda áfram að spila leiki sína á Wembley. 

NFL-leikur Seattle Seahawks og Oakland Raiders sem átti að fara fram 14. október á nýja leikvanginum hefur einnig verið færður yfir á Wembley.

Formaður Tottenham, Daniel Levy, sagðist hafa fullan skilning á óánægju stuðningsmanna:

„Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er svekkjandi fyrir ársmiðaeigendur og aðra aðdáendur út í heimi. Við kunnum að meta stuðninginn frá félögum okkar í NFL allt frá því umfang vandamálanna kom í ljós. Í byrjun verkefnisins báðum við ykkur um stuðning á meðan á byggingu nýs leikvangs stóð og nú biðjum við ykkur um áframhaldandi þolinmæði.“  

Áætlað er að nýr leikvangur Tottenham verði kominn í gagnið fyrir leik liðsins gegn Manchester City 28. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert