Barcelona mun ekki bjóða í Pogba

Paul Pogba fagnar marki sínu úr vítaspyrnu gegn Leicester á ...
Paul Pogba fagnar marki sínu úr vítaspyrnu gegn Leicester á föstudaginn. AFP

Ekki virðist vera á dagskrá hjá Barcelona að bjóða í Paul Pogba hjá Manchester United þetta sumarið þrátt fyrir mikinn fréttaflutning um annað. 

Félögin á Spáni hafa tíma til 31. ágúst til að kaupa leikmenn en Ariedo Braida, einn af stjórnendum FC Barcelona, segir það ekki vera á dagskrá að kaupa Pogba. 

„Ég held að við munum ekki bjóða í Pogba en hann er frábær leikmaður,“ sagði Braida í útvarpsviðtali við Radio Sportiva.

Pogba gerði fimm ára samning við United árið 2016 en þrálátur orðrómur hefur verið um að hann og knattspyrnustjórinn, José Mourinho, séu ekki á sömu blaðsíðunni. Sé það rétt gæti sú staða hafa breyst eitthvað þar sem Pogba var fyrirliði í fyrsta leik United í deildinni á keppnistímabilinu. 

mbl.is