Pogba sagður staðráðinn í að fara

Paul Pogba var frábær í 2:1-sigri United á Leicester City ...
Paul Pogba var frábær í 2:1-sigri United á Leicester City um síðustu helgi. AFP

Paul Pogba, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu. Pogba varð heimsmeistari með Frökkum í Rússlandi í sumar eftir 4:2-sigur á Króötum í úrslitaleik í Moskvu. Pogba var einn besti leikmaður Frakka á mótinu en þrátt fyrir það vildi José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, ekki hrósa honum of mikið fyrir frammistöðu hans á mótinu.

Enskir miðlar greindu svo frá því að spænska stórliðið Barcelona hefði lagt fram tilboð í leikmanninn, áður en félagaskiptaglugginn á Englandi lokaði, en United hafnaði tilboðinu. Pogba var svo fyrirliði United í fyrsta leik tímabilsins á Englandi þegar United fékk Leicester í heimsókn en United vann 2:1-sigur og skoraði Pogba fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu.

Sportsmail greinir frá því í kvöld að Pogba sé enn þá staðráðinn í að ganga til liðs við Barcelona, hvort sem það verður núna, í janúar eða næsta sumar. Pogba varð dýrasti leikmaður heims sumarið 2016 þegar United borgaði Juventus tæplega 90 milljónir punda fyrir hann. Hann missti sæti sitt í byrjunarliði United á síðustu leiktíð eftir að honum og Mourinho sinnaðist á miðju tímabili en United hefur lítinn sem engan áhuga á því að selja hann á meðan glugginn á Englandi er lokaður.

mbl.is