Jóhann Berg áfram eftir framlengingu

Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. Ljósmynd/Burnley

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í enska úrvalsdeildarliðinu Burnley eru komnir áfram í Evrópudeildinni í fótbolta eftir 1:0-sigur á İstanbul Başakşehir á heimavelli sínum í kvöld. 

Fyrri leikur liðanna endaði með markalausu jafntefli og fer Burnley því áfram eftir samanlagðan 1:0-sigur. Jóhann Berg byrjaði á varamannabekknum en kom inn fyrir Aaron Lennon á 58. mínútu. 

Ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja. Í framlengingunni reyndist miðjumaðurinn Jack Cork vera hetjan, en hann skoraði sigurmarkið á 98. mínútu.

Böðvar Böðvarsson var ekki í leikmannahópi Jagiellonia sem tapaði fyrir Gent í Belgíu 3:1. Gent vann einvígið samanlagt 4:1. Orri Sigurður Ómarsson var ekki í leikmannahóp Sarpsborg frá Noregi sem vann Rijeka frá Króatíu á útivelli 1:0. Sarpsborg fer áfram, 2:1, samanlagt. 

Matthías Vilhjálmsson var svo ekki í leikmannahópi Rosenborg sem vann 3:0-sigur á Cork frá Írlandi. Rosenborg var mun sterkari aðilinn í einvíginu og vann samanlagðan 5:0-sigur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert