„Aldrei verið ánægðari með Pogba“

Það er ekkert vandamál á milli José Mourinho og Paul ...
Það er ekkert vandamál á milli José Mourinho og Paul Pogba samkvæmt knattspyrnustjóranum. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur aldrei verið ánægðari með Paul Pogba, leikmann liðsins, en þetta staðfesti hann á blaðamannafundi í dag. Þá staðfesti stjórinn einnig að Pogba yrði fyrirliði um helgina þegar United heimsækir Brighton í ensku úrvalsdeildinni.

„Sannleikurinn er sá að við höfum núna unnið saman í rúmlega tvö ár og ég hef aldrei verið ánægðari með hann og það er sannleikurinn. Ég get ekki beðið hann um neitt meira frá honum. Hann kom hérna á mánudaginn í síðustu viku og hefur verið frábær síðan þá. Ég bað hann um að hjálpa okkur gegn Leicester og hann stóð sig frábærlega.“

„Hann gerði allt sitt fyrir liðið og stuðningsmennina og það er það eina sem ég bið um. Ég vil að leikmenn mínir leggi sig fram, fyrir liðið í heild sinni, og hann hefur gert það. Þegar allt kemur til alls snýst þetta um liðið, ekki einstaka leikmenn,“ sagði stjórinn enn fremur.

mbl.is