Kenedy skúrkurinn í Cardiff

Kenedy misnotaði vítaspyrnu í lok leiks.
Kenedy misnotaði vítaspyrnu í lok leiks. AFP

Cardiff og Newcastle gerðu markalaust jafntefli í Wales í annarri umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Aron Einar Gunnarsson var ekki í leikmannahópi Cardiff í dag en hann er enn frá vegna meiðsla.

Báðum liðum gekk illa að skapa sér færi og átti Brasilíumaðurinn Kenedy ansi skrautlegan annan leik fyrir Newcastle en hann er þar að láni frá Chelsea. Honum tókst ekki að eiga eina einustu heppnaða sendingu í fyrri hálfleiknum og hefði þar að auki átt að fá beint rautt spjald eftir rúman hálftíma þegar hann sparkaði af alefli í miðjumann Cardiff, Victor Camarasa, en dómarinn virtist ekki sjá atvikið.

Rauða spjaldið fór þó loks á loft í síðari hálfleik er Isaac Hayden, sem kom inn á fyrir Newcastle í hálfleik, var rekinn af velli á 66. mínútu fyrir að tækla Josh Murphy heldur harkalega, aftan frá. Áfram gekk liðunum þó afleitlega að skapa sér færi en á sjöttu mínútu uppbótartímans fengu gestirnir gullið tækifæri til að hirða stigin þrjú er Newcastle fékk vítaspyrnu.

Það var enginn annar en Kenedy sem steig á punktinn, tók heldur skrautlegt upphlaup og átti svo afar slaka spyrnu, beint á Neil Etheridge í markinu. Strax í kjölfarið flautaði Craig Pawson dómari til leiksloka og urðu því liðin að sættast á hvort sitt stigið, það fyrsta sem bæði lið innbyrða á tímabilinu.

Kenneth Zohore skýlir boltanum frá Ciaran Clark í Cardiff í …
Kenneth Zohore skýlir boltanum frá Ciaran Clark í Cardiff í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert