Bað Salah um að ræða við dómarann

Mohamed Salah var öflugur í gær fyrir Liverpool og fiskaði …
Mohamed Salah var öflugur í gær fyrir Liverpool og fiskaði meðal annars vítaspyrnu. AFP

Liverpool vann 2:0-sigur á Crystal Palace í annarri umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Selhurst Park í gær. Það voru þeir James Milner og Sadio Mané sem skoruðu mörk Liverpool í leiknum en Milner skoraði af vítapunktinum eftir að Mohamed Salah var felldur innan teigs.

Leikmenn Crystal Palace voru afar ósáttir með dóminn en það var Mamadou Sakho, fyrrverandi leikmaður Liverpool og varnarmaður Palace, sem braut á Salah innan teigs. Luka Milivojevic, fyrirliði Crystal Palace, bað Mohamed Salah um að ræða við dómara leiksins, Michael Oliver, eftir að hann hafði dæmt vítaspyrnu en hann greindi frá þessu í viðtölum eftir leik.

„Ég sagði honum að ræða við dómarann og segja honum að þetta hafi ekki verið vítaspyrna. Hann sagði hins vegar að það hefði verið klár snerting innan teigs og að þetta væri víti. Fyrir mér þá var þetta aldrei vítaspyrna. Ég sá atvikið vel í leiknum og ég horfði á það aftur eftir leik. Mama reyndi við boltann, hann náði ekki boltanum en hann kom aldrei við manninn heldur,“ sagði Milivojevic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert