Raiola lætur Scholes heyra það

Mino Raiola.
Mino Raiola.

Umboðsmanninum Mino Raiola leiðist ekki að vera á milli tannana á fólki. Einn af skjólstæðingum hans er knattspyrnumaðurinn Paul Pogba sem margir hafa gagnrýnt fyrir slæma frammistöðu með Manchester United.

Fyrrverandi leikmaður Manchester United, Paul Scholes, hefur verið duglegur að gagnrýna Pogba undanfarna daga og vikur. Scholes hefur látið hafa eftir sér að Pogba þurfi að nota heilann meira og að hann standi sig aðeins vel í einum af hverjum fjórum leikjum.

Eftir 3:2 tap United fyrir Brighton um helgina sagðist Scholes efast um að Pogba hefði leiðtogahæfileikana sem þyrfti til að vera fyrirliði liðsins, en Pogba hefur haft fyrirliðabandið meðan aðalfyrirliði liðsins, Antonio Valencia, er meiddur.

Nú hefur Raiola svarað Scholes fullum hálsi. Á Twitter segir Raiola að Scholes sé dæmi um mann sem sé hræddur um að gleymast og að hann myndi ekki þekkja leiðtoga þó hann stæði fyrir framan Winston Churchill. Hann hvatti Scholes einnig til þess að vera Ed Woodward innan handar og koma því til skila að selja ætti Pogba. Hann sagðist í kaldhæðnislegum tóni sjá fram á margar svefnlausar nætur við að finna honum nýtt lið. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert