Enginn getur talið sig öruggan

Leroy Sané.
Leroy Sané. AFP

Gabriel Jesus, framherji Englandsmeistara Manchester City, segir að enginn leikmaður liðsins geti talið sig öruggan um að komast í leikmannahópinn eftir að Leroy Sané var settur út úr hópnum fyrir leikinn á móti Newcastle á laugardaginn.

Sané mátti sætta sig við að vera ekki valinn í leikmannahópinn en Þjóðverjinn átti frábært tímabil með Manchesterliðinu á síðustu leiktíð. Enskir fjölmiðlar segja að Pep Guardiola hafi verið að refsa Sané en stjórinn hefur ekki verið sáttur við viðhorf leikmannsins á æfingum og í leikjum að undanförnu. Sané var ekki valinn í þýska landsliðshópinn sem lék á HM í sumar.

„Það er alveg eðlilegt í þessum frábæra leikmannahópi að leikmaður sé settur út úr hópnum og á laugardaginn var það Sané. Í næsta leik gæti það orðið ég eða einhver annar. Ég mun leggja hart að mér til að koma í veg fyrir að það gerist hjá mér. Við vitum öll hvaða hæfileika Sané hefur og hversu mikilvægur hann er fyrir okkur en tímabilið er rétt nýhafið og það er eðlilegt að sumir leikmenn hafi byrjað betur og séu í betra formi en aðrir,“ sagði Jesus við fréttamenn eftir leikinn.

mbl.is