Neitar að yfirgefa Liverpool

Lazar Markovic í leik með Liverpool.
Lazar Markovic í leik með Liverpool. AFP

Sama hvað forráðamenn Liverpool reyna, þá virðist það vera ómögulegt fyrir félagið að losna við serbneska kantmanninn Lazar Markovic þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Brendan Rogers, þáverandi stjóri Liverpool, keypti Markovic á 20 milljónir punda árið 2014 en hann hefur aldrei náð að festa sig í sessi á Anfield. Markovic hefur verið lánaður til Fenerbahce, Sporting, Hull City og Anderlecht, og var raunar næstum alfarinn til síðastnefnda liðsins í sumar.

Markovic ferðaðist meðal annars til Belgíu til þess að ganga frá síðustu lausu endunum, en snerist hugur á síðustu stundu og neitaði að semja við Anderlecht. Samningur hans rennur út næsta sumar og gæti því farið svo að Liverpool fái ekki neitt upp í þá fjárhæð sem það greiddi fyrir hann á sínum tíma.

Markovic, sem er 24 ára gamall, spilaði síðast keppnisleik fyrir Liverpool árið 2015. Hann á að baki 22 landsleiki fyrir Serbíu.

mbl.is