Óvenju góð byrjun í ensku úrvalsdeildinni

Mohamed Salah, Sadio Mané og félagar í Liverpool eru með ...
Mohamed Salah, Sadio Mané og félagar í Liverpool eru með fullt húst. AFP

Eftir fyrstu fjórar umferðirnar á nýju tímabili í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eru Chelsea, Liverpool og Watford öll með fullt hús stiga. Það er í fyrsta sinn í sjö ár sem fleiri en eitt lið hafa byrjað tímabilið svo vel.

Síðast gerðist það tímabilið 2011-2012 að fleiri en eitt lið voru með fullt hús stiga eftir fjóra leiki. Þá voru það Manchester United og Manchester City sem bæði byrjuðu svo vel, en City endaði sem meistari þá um vorið.

Ekki gengur jafn vel hjá öllum liðum og er West Ham til dæmis búið að tapa öllum fjórum leikjum sínum. Er það í fyrsta sinn sem knattspyrnustjórinn Manuel Pellegrini tapar fjórum deildarleikjum í röð á ferli sínum sem stjóri, en hann hefur meðal annars stýrt Villarreal, Real Madrid og Manchester City. Hann tók við West Ham í sumar.

mbl.is