Ég var nálægt því að missa fótinn

Luke Shaw fagnar marki gegn Leicester í fyrstu umferð ensku ...
Luke Shaw fagnar marki gegn Leicester í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í síðasta mánuði. AFP

Luke Shaw, bakvörður í liði Manchester United, segir að hann hafi næstum því misst fótinn þegar hann brotnaði illa á tveimur stöðum í leik gegn PSV í Meistaradeildinni fyrir þremur árum.

Shaw var lengi frá vegna meiðslanna og átti erfitt uppdráttar eftir að hann komst aftur út á völlinn en nú horfir til betri vegar og á dögunum var hann valinn í enska landsliðshópinn.

„Ég væri að ljúga ef ég segði að ég hefði ekki hugsað um að hætta. Það voru margir fylgikvillar í fætinum og þetta var mjög erfið stund á mínum ferli. Enginn vissi það en ég var mjög nálægt því að missa hreinlega fótinn. Ég vissi það ekki fyrr en sex mánuðum síðar þegar læknirinn tjáði mér það.

Þeir voru að hugsa um að senda mig til baka með flugi og ef ég hefði gert það hefði ég líklega misst fótinn vegna blóðtappa. En ég er ekkert að hugsa um þetta núna. Hægri fóturinn er núna nákvæmlega eins og hann var áður en hann brotnaði,“ sagði Shaw við fréttamenn en bakvörðurinn hefur byrjað tímabilið ljómandi vel með Manchester United og var verðlaunaður fyrir það með að vera valinn í enska landsliðshópinn fyrir leikina gegn Spánverjum og Svisslendingum.

Manchester United keypti Shaw frá Southampton fyrir 27 milljónir punda árið 2014 og var hann þá einn dýrasti táningurinn í heimsfótboltanum á þeim tíma enda aðeins 18 ára gamall.

mbl.is