Jóni Daða var sagt að halda með United

Jón Daði Böðvarsson er mjög ánægður hjá Reading.
Jón Daði Böðvarsson er mjög ánægður hjá Reading. Ljósmynd/Reading

Jón Daði Böðvarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er í löngu og skemmtilegu viðtali á heimasíðu Reading í dag. Jón Daði hefur farið vel af stað með Reading á leiktíðinni og skorað þrjú mörk í þremur byrjunarliðsleikjum í ensku B-deildinni, þrátt fyrir erfitt gengi liðsins. 

Framherjinn fer um víðan völl í viðtalinu, allt frá barnæskunni á Selfossi og að HM í Rússlandi í sumar. Hann segir að ást sín á fótbolta hafi vaknað er hann var ungur drengur. 

„Ég var sex ára þegar ég byrjaði að sparka í bolta. Í frímínútum í skólanum horfði ég á stráka í tíunda bekk spila fótbolta. Ég var sex ára og þeir sextán ára og þeir tóku eftir því að ég var að horfa á og buðu mér að vera með. Þannig byrjaði ást mín á fótbolta,“ rifjar Jón Daði upp. 

„Að spila með eldri strákum hjálpaði mér að verða betri í fótbolta. Samhæfni, tækni og allt annað kom hraðar, svo ég varð betri og betri. Það er mikilvægt fyrir krakka að gera meira en bara mæta á æfingar, það þarf að æfa heima líka, það er ein stærsta ástæðan fyrir því að ég er hér í dag.“

Man eftir sigurmarki Gylfa á móti Liverpool

Jón Daði segir að fyrsta félagið sem hann hafi stutt sé Manchester United. 

„Fótbolti er langvinsælasta íþróttin á Íslandi í dag. Allir krakkar spila fótbolta og hann er alltaf í sjónvarpinu, sérstaklega enski boltinn. Mér var hreinlega sagt að halda með Man. United, það var fyrsta liðið sem ég fór að fylgjast með. Ég ólst upp við að horfa á leikmenn eins og Beckham, Scholes og Giggs, sem voru mjög góðir leikmenn. Það var alltaf draumur að spila á Englandi og nú er ég hér, draumurinn hefur ræst.“

Selfyssingurinn er ekki eini Íslendingurinn sem hefur leikið með Reading. Axel Óskar Andrésson er samningsbundinn Reading og hefur leikið tvo leiki fyrir aðaliðið, en er sem stendur að láni hjá Viking í Noregi. Leikmenn á borð við Gylfa Þór Sigurðsson, Brynjar Björn Gunnarsson, Ívar Ingimarsson og Gunnar Heiðar Þorvaldsson hafa einnig leikið með liðinu í gegnum tíðina. 

„Ég man eftir Reading í úrvalsdeildinni. Ég man vel eftir Brynjari og Ívari og ég man að Gylfi skoraði sigurmark úr víti á móti Liverpool í bikarnum. Ég vissi mikið um félagið áður en ég kom og ég er mjög ánægður hérna. Það tekur á líkamann að spila í B-deildinni og það tók mig langan tíma að venjast því. Nú er ég á mínu þriðja ári á Englandi og þekki þetta vel. Ég er búinn að koma mér fyrir,“ sagði Jón Daði.

Þetta ítarlega viðtal má sjá í heild sinni með því að smella hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert