Oliver dæmir hjá Íslendingum

Jürgen Klopp ræðir við Michael Oliver.
Jürgen Klopp ræðir við Michael Oliver. AFP

Englendingurinn Michael Oliver mun dæma viðureign Sviss og Íslands sem mætast í fyrstu umferð þjóðadeildar UEFA í knattspyrnu í St. Gallen í Sviss á laugardaginn.

Oliver er 33 ára gamall og hefur dæmt í ensku úrvalsdeildinni frá 2010 en hann varð yngsti dómarinn til að dæma í ensku úrvalsdeildinni, 25 ára gamall.

Oliver hefur dæmt nokkra stórleiki á ferli sínum. Hann dæmdi úrslitaleik Manchester United og Chelsea í ensku bikarkeppninni í vor og þá dæmdi hann viðureign Liverpool og Manchester City þegar þau mættust í úrslitaleik ensku deildabikarkeppninnar fyrir tveimur árum.

Á síðustu leiktíð var Oliver dómari í síðari viðureign Real Madrid og Juventus í undanúrslitum Meistaradeildarinnar þar sem allt sauð upp úr þegar hann dæmdi vítaspyrnu á Juventus undir lok leiksins. Í kjölfarið rak hann goðsögnina Gianluigi Buffon af velli og eftir leikinn hraunaði Buffon yfir Oliver og sagði að hann væri með rusla­tunnu í stað hjarta og ætti frek­ar að vera í áhorfenda­stúk­unni með gos og fransk­ar. Buffon fékk bæði bann og sekt fyrir ummæli sín.

Tveir þekktir dómarar úr ensku úrvalsdeildinni verða sprotadómarar, þeir Craig Pawson og Martin Atkinson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert