Kane fær hvíld gegn Svisslendingum

Kane með gullskóinn sem hann fékk fyrir að verða markakóngur ...
Kane með gullskóinn sem hann fékk fyrir að verða markakóngur á HM. AFP

Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins í knattspyrnu, verður ekki í byrjunarliði Englendinga þegar þeir mæta Svisslendingum í vináttuleik á King Power-vellinum í Leicester annað kvöld.

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, segir að Kane þurfi á hvíld að halda en framherjinn, sem varð markakóngur á HM í Rússlandi í sumar, hefur byrjað inn á í 61 leik frá því tímabilið í fyrra hófst.

Fyrir utan Kane eru Marcus Rashford og Danny Welbeck einu framherjarnir í enska landsliðshópnum en samanlagt hafa þeir spilað 143 mínútur í fyrstu fjórum umferðunum í ensku úrvalsdeildinni og skorað eitt mark sem Welbeck gerði gegn West Ham.

mbl.is