Shaw missir af næstu leikjum United

Luke Shaw.
Luke Shaw. AFP

Líklegt er að Manchester United verði án vinstri bakvarðarins Luke Shaw í næstu tveimur leikjum liðsins en hann fékk þungt höfuðhögg í leik Englendinga og Spánverja í Þjóðadeild UEFA á laugardagskvöldið og þurfti að fara af velli snemma í síðari hálfleik.

Shaw kemur alveg örugglega til með að missa af leik United þegar það sækir spútniklið Watford heim í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn og hann mun líklega einnig af missa af leiknum á móti svissneska liðinu Young Boys í Meistaradeildinni í næstu viku.

Shaw hefur byrjað leiktíðina vel með Manchester United og hefur verið einn besti maður liðsins í fyrstu fjórum umferðunum.

mbl.is