Enginn samningur hjá Terry í Rússlandi?

John Terry.
John Terry. AFP

Ef marka má fjölmiðla í Rússlandi lítur allt út fyrir að ekkert verði að félagaskiptum Johns Terry, fyrrverandi fyrirliða Chelsea, til rússneska liðsins Spartak Moskva.

Terry, sem yfirgaf Aston Villa í sumar, gekkst undir læknisskoðun hjá Spartak Moskva á Ítalíu um síðustu helgi og samþykkti að gera samning við félagið en nú bendir flest til þess að ekkert verði að félagaskiptunum.

Terry hefur verið orðaður við endurkomu til Aston Villa og hefur knattspyrnustjórinn Steve Bruce lýst því yfir að hann vilji fá reynsluboltann til liðs við sig en eigendur Aston Villa eru ekki sama sinnis.

mbl.is