Lloris gerir sér vonir um að spila gegn Liverpool

Hugo Lloris.
Hugo Lloris. AFP

Hugo Lloris, markvörður og fyrirliði Tottenham, gerir sér vonir um að ná að spila gegn Liverpool en liðin eigast við á Wembley í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu á laugardaginn.

Lloris hefur verið að glíma við meiðsli og missti af leik Tottenham gegn Watford fyrir landsleikjahléið og stóð ekki vaktina í marki heimsmeistara Frakka í leikjunum á móti Þjóðverjum og Hollendingum í Þjóðadeild UEFA.

„Ég legg hart að mér að snúa til baka eins fljótt og mögulegt er og það er möguleiki á að ég spili um næstu helgi,“ sagði Lloris í samtali við frönsku útvarpsstöðina RMC.

Tottenham er með 9 stig eftir þrjá leiki en Liverpool er með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir eins og Chelsea og Watford.mbl.is