Rashford ætti að fara frá United

Marcus Rashford fagnar marki sínu gegn Svisslendingum í gær.
Marcus Rashford fagnar marki sínu gegn Svisslendingum í gær. AFP

Sparkspekingurinn Jamie Carragher, fyrrverandi fyrirliði Liverpool, telur að enski landsliðsframherjinn Marcus Rashford eigi að yfirgefa Manchester United.

Rashford, sem er tvítugur, hefur þurft að dúsa töluvert mikið á bekknum frá því José Mourinho tók við stjórastöðunni hjá United og er kappinn sagður orðinn pirraður á stöðu sinni hjá félaginu. Rashford hefur byrjað inná í einum af fjórum leikjum United í deildinni og í síðasta leik gegn Burnley fékk hann rautt spjald eftir að hafa komið inná sem varamaður og var í kjölfarið úrskurðaður í þriggja leikja bann.

Rashford hefur verið á skotskónum með enska landsliðinu í síðustu leikjum. Hann skoraði mark Englendinga í 2:1 tapi gegn Spánverjum í Þjóðadeild UEFA á laugardaginn og skoraði sigurmarkið gegn Svisslendingum í vináttuleik í gær.

„Vandamálið fyrir Rashford og fleiri unga framherja í stóru félögunum er að það er erfitt fyrir þá að vinna sér sæti í byrjunarliðinu. Ég sé ekki að Rashford taki stöðu Romelu Lukaku hjá Manchester United.

Þegar Lukaku var í Chelsea þurfti hann að fara til Everton og hann endaði þar sem markahæsti leikmaðurinn á tímabilinu og fór svo þaðan til Manchester United. Ég sé fyrir mér að Rashord gæti farið til Everton. Þar mundi hann spila um hverja helgi,“ sagði Carragher við Sky Sports.

mbl.is