Terry hafnaði risatilboði Spartak Moskva

John Terry.
John Terry. AFP

John Terry, fyrrverandi fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Chelsea, hefur staðfest að hann hafi hafnað að ganga til liðs við rússneska liðið Spartak Moskva.

Terry gekkst undir læknisskoðun hjá rússneska liðinu á Ítalíu um síðustu helgi og í kjölfarið samþykkti hann að ganga í raðir félagsins en honum snerist hugur og þar með verður ekkert að því að hann spili með rússneska liðinu.

„Eftir ítarlega umhugsun þá hef ég ákveðið að hafna samningstilboði Spartak Moskva. Ég vil nota tækifærið að þakka Spartak Moskva fyrir og óska því og þeirra stuðningsmönnum alls hins besta til loka tímabilsins.

Eftir að hafa farið vel yfir málin með fjölskyldunni þá töldum við það ekki rétt að fara til Rússlands á þessum tímapunkti,“ sagði hinn 37 ára gamli Terry í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag en hann ku hafa átt að fá 3 milljónir punda í árslaun en sú upphæð jafngildir 446 milljónum króna.

Terry yfirgaf Aston Villa eftir að hafa tapað fyrir Fulham í umspili um sæti í ensku úrvalsdeildinni í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert