Willian hefur snúist hugur

Willian vill vera hjá Chelsea næstu árin.
Willian vill vera hjá Chelsea næstu árin. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Willian fullyrðir í viðtali að hann hafi aldrei viljað yfirgefa Chelsea í sumar þrátt fyrir áhuga Manchester United og Barcelona.

Samkvæmt frétt Sky Sports gerði Barcelona þrjú tilboð í Willian en þeim var öllum hafnað og Willian virðist sáttur við það. Áður hafði hann lýst því yfir að það hefði ekki komið til greina að vera áfram hjá Chelsea ef Antonio Conte yrði áfram stjóri félagsins, en nú kveðst þessi 30 ára leikmaður aldrei hafa íhugað að fara frá félaginu. Innkoma Maurizio Sarri sem knattspyrnustjóri virðist hafa breytt skoðun hans.

„Alls konar fólk segir alls konar hluti í fjölmiðlum en ég sagði aldrei að ég vildi fara frá Chelsea. Aldrei. Ég hef alltaf sagt að ég vilji vera eins lengi og ég get hjá Chelsea og ég er ánægður með að vera hérna,“ sagði Willian við heimasíðu Chelsea.

„Ég veit að ég á tvö ár eftir af samningnum mínum en ég vonast til að vera fleiri ár í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Willian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert