Gæti alveg notað Aron ef ég vildi

Aron Einar Gunnarsson á ferðinni gegn Króötum á HM.
Aron Einar Gunnarsson á ferðinni gegn Króötum á HM. mbl.is/Eggert

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, hefur hvorki spilað með landsliðinu né liði sínu Cardiff síðan hann mætti Króatíu á HM í Rússlandi í sumar.

Aron vinnur að því að koma sér í sem best ástand eftir meiðsli áður en hann leikur sinn fyrsta leik á tímabilinu. Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff, segist allt eins geta teflt Aroni fram gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni um miðjan dag á morgun:

„Við þurfum ekki að ýta á eftir Aroni. Hann gæti spilað um helgina ef ég vildi að hann spilaði, en ég er ekki viss um að ég vilji það. Við verðum að byggja hnéð upp,“ sagði Warnock á fréttamannafundi í dag.

mbl.is